Mikill fjöldi gesta mætti í 15 ára afmæli Kraftvéla fyrir skömmu. Meðal dyggustu viðskiptavinum Kraftvéla og góður vinur Ævars Þorsteinssonar forstjóra er Eiður Haraldsson, fyrrverandi eigandi og forstjóri verktakafyrirtækisins Háfells.

Hann var erlendis og gat því ekki mætt í hófið en sendi í sinn stað Jóhann Sigurðarson leikara með afmæliskveðju sína í bundnu máli sem hann las upp fyrir gestina. Vakti þetta uppátæki Eiðs mikla lukku og veitti Ævar verktakablaði Viðskiptablaðsins góðfúslegt leyfi til að birt það hér í heild sinni og þökkum við höfundi fyrir kveðskapinn.

Kraftvélar 15 ára

Ég flutt hef um ævina fell, bæði láreist og há
og af framsækni lagt hef brautir, á láði sem legi.
Og ef hamrarnir vildu ekki auðmjúkir hypja sig frá,
ég boraði í genum þá þvera og lagði í þá vegi.

Þótt smádrjúgur hljómi, ég staðreynd þá vil ekki fela,
að snautlegur væri, án aðstoðar kröftugra véla.

--

En vegurinn að þeim var grýttur og vandfundin leiðin.
Ég valt um á farlama lirfu, sem óð bara reyk.
En hjálpin er næst þegar mest lætur helvítis neyðin.
Og hjálpina hlaut ég frá lítilli japanskri eik.

Það var klettur af manni sem kynnti mér ástina blíða
og svo kýldur í herðum, ég þorði ekki öðru en að hlýða.

---
Þessi klettur af manni var karatemeistari mikill
en karate táknar hjá Kínverjum galtóma hönd.
Og hann átti tvær þessi tröllslegi, áræðni hnykill,
þegar tók hann að skapa sér auðnu og nema lönd.

Hann var stórtækur fljótt, þó samkeppnin tæki því illa.
Það voru engar smáræðis krumlur, sem þurfti að fylla.

---

En þótt gíni við miklu og gullinu hvíldarlaust safni,
þá er gjafmildi og rausn hans í hlutfalli réttu við það.
Ég vona að Kraftvélar endalaust vaxi og dafni
þó að vöxtur hans sjálfs megi, mín vegna, standa í stað.

Maður heilmikils myndi þó sakna ef af honum nást
svona sextíu, sjötíu kíló af einskærri ást.

---

Hann vann víst í Hollyvúdd fyrir hann Laufdal úr Eyjum
og hvílíka sjón hafði enginn víst upplifað fyr(r).
Baðaður ljósum og umvafinn barmmiklum meyjum,
hann bölvuðum gæjunum henti víst öllum á dyr.

Ég hugsa með hrolli til þessara diskóballa.
Sé helvítið fyrir mér klæddan í Spandexgalla.

---

Við höfum jú atast um heiminn í allskonar gerfum
og atlætið reyndist oft hóflega umfram vor efni.
Ráfuðum götur í tvíræðum, rauðlýstum hverfum
röflaðu bara ekki mikið um það upp úr svefni.

Já, við höfum drukkið á rússnesku, japönsku og þýsku.
Svo gerðirðu innrás í Danmörku, sem nú er í tísku.

---

Einhverju sinni þú náðir í slæmsku í Riga
svo svæsna að við héldum að það yrðu örlög þín.
Arna var örvænt og ég var á nálunum líka
svo ég gerði eins og mamma og sendi þér appelsín.

Það sefaði mig sem strákling og bar af mér blak
en á sjúkleika þinn þurfti flösku af "Armagnac".

--

Ég hef stigið úr öndvegi, dregið úr amstri og önnum,
og örfáum krónum hef nurlað á framtíðarbók.
Núna deili ég valdi með yngri og dugmeiri mönnum
er í dag aðeins hálfgildings, láglaunuð, ráðgjafablók.

En ég rutt hef með vélum frá ykkur þá greiðfæru rein,
sem í reisn mun mér leyfa að setjast í skinhelgan stein.

--

Það er skítt að ég geti ekki skálað á formlegri nótum,
en ég skutlaðist erlendis (kannski er það hófinu greiði).
Ég verð með þarna í anda á verðugum skammtímamótum,
því að varla þið eruð nú meira en á frumgelgjuskeiði.

Bið að heilsa ykkur Matti og Tóti og allir hinir
og ekki síst Olgu, þið eruð mér staðfastir vinir.

--

Þig Ævar ég hylli og óska þér ævina bjarta,
einnig Körlunum þremur og Örnu ég kveðju vil senda.
Ykkur glaðsinna fólki með stórbrotið gefandi hjarta
ég gæfunnar óska, sem aldreigi taka mun enda.

Og Ævar að lokum, ef undrast hver gerðist svo gleiður.
Ef að værum við hjón, yrði sonurinn; ÆvarEiður.