Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir ljóst að útboðsstopp Vegagerðarinnar þýði að þau verktakafyrirtæki sem enn hafa einhver verkefni verði verkefnalaus þegar kemur fram á vetur og næsta ár.

Fulltrúar ríkisvaldsins segist aftur á móti ætla að semja við lífeyrissjóðina um einhverjar einkaframkvæmdir. Stefnt sé á að ná einhverju samkomulagi um það í haust. Þá á eftir að bjóða út verkefnin.

„Þá ertu bara kominn með margra mánaða hlé í starfsemi þessara fyrirtækja. Þau lifa það ekki af. Það er ekki þannig að menn geti bara geymt fyrirtækin, mannskapinn og vélarnar í hálft ár út í móa og kallað síðan, nú er ræs. Þau munu því strax segja upp öllum sínum mannskap og reyna að losa sig við tól og tæki. Ég yrði mjög hissa ef við sjáum ekki massífar uppsagnir fyrir næstu mánaðamót. Það er það eina sem menn geta gert í stöðunni," segir Jón Steindór í samtali við Viðskiptablaðið.