Eggert Benedikt Guðmundsson hefur látið af störfum sem forstjóri N1 og núverandi fjármálastjóri, Eggert Þór Kristófersson, tekur við starfinu. Félagið tilkynnti í dag hagnað á síðasta ári upp á 1,6 milljarð króna og tilkynntu að stefnt væri að því að greiða tæpa þrjá milljarða til hluthafa.

Eggert Benedikt segist sáttur við þessa breytingu og að framhaldið sé óráðið. „Nei ég veit það ekki sjálfur, nú fer ég að huga að nýjum og spennandi verkefnum.“

Ertu ánægður með tímann hjá félaginu?

„Já ég er mjög ánægður með þennan tíma og félagið er búið að ná þeim árangri í verkefnum sem tekin voru fyrir hendur. Þetta var viðburðarríkur tími, félagið skráð á markað og endurskipulagt. Það er búið að hagræða vel í rekstri, lækka rekstrarkostnað og endurskipuleggja markaðsstarf á stuttum tíma. Ég lít stoltur um öxl.“