Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, hefur staðið sig frábærlega á milli stanganna í leikjum liðsins í undankeppni EM. Hannes er einn af lykilmönnum liðsins í þeirri miklu velgengni sem það hefur átt að fagna á undanförnum misserum. Ljóst er að hann mun vera áfram í lykilhlutverki liðsins í úrslitakeppni EM í Frakklandi á næsta ári.

Hannes gekk til liðs við Nijmegen í Hollandi í sumar frá norska liðinu Sandnes Ulf og hefur leikið vel í markinu og haldið hreinu í þremur leikjum með hollenska liðinu á tímabilinu. Markvörðurinn öflugi svarar hér nokkrum spurningum um bíla og segir m.a. frá Egginu sem er uppáhaldsbíllinn hans.

Hver er uppáhaldsbíllinn þinn?

„Ég verð líklega að nefna 90 árgerð af hvítri Hondu Civic station sem var fyrsti bíllinn sem ég eignaðist. Ég keyrði þennan bíl öll menntaskólaárin og samband okkar var svipað og samband Tomma og Jenna: óaðskiljanlegir. Alltaf eitthvað vesen á milli okkar en innst inni var ekkert nema ást. Hann var kallaður Eggið af vinum mínum einfaldlega af því að hann leit út eins og Egg og þessi bíll var órjúfanlegur hluti af minni ímynd í menntaskóla. Mér þótti mjög vænt um hann.“

Nánar er spjallað við Hannes í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .