Kostnaður skattgreiðenda við að halda ríkisstjórnarfund á Egilsstöðum 8. maí sl. nam tæplega 550 þús.kr.

Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn til forsætisráðuneytisins vegna kostnaðar við fundinn. Í svari frá ráðuneytinu kemur fram að flug fyrir fimm (ráðherra, skrifstofustjóra, aðstoðarmann, embættismann og bílstjóra) hafi numið tæpum 169 þús.kr. Þá greiddi forsætisráðuneytið um 24 þús.kr. vegna leigu á tveimur bifreiðum og 106 þús.kr. fyrir leigu á sal og fyrir hádegisverð.

Samkvæmt heimildum blaðsins nam heildarkostnaður vegna flugfara allra aðila, þ.e. fyrrgreindra aðila auk sjö ráðherra til viðbótar, um 400 þús.kr. Ríkisstjórnin hélt sem kunnugt er ríkisstjórnarfund á Akureyri um miðjan maí 2009 en það var jafnframt fyrsti fundur núverandi ríkisstjórnar eftir kosningar. Kostnaðurinn við þann fund nam um 400 þús.kr.