Stjórnvöld í Egyptalandi segja engin tengsl á milli þess að ákveðið var að fresta þingkosningum þar í landi og umsóknar landsins um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hisham Kandil, forsætisráðherra Egyptalands, fundaði með sendifulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær vegna umsóknar landsins um 4,8 milljarða dala fjárhagsaðstoð til að slá á efnahagskreppu í landinu.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Alaa El-Hadidi, talsmaður egypsku ríkisstjórnarinnar, að náðst hafi samkomulag um lánið í megindráttum í nóvember í fyrra. Lánveitingar hafi hins vegar verið settar á ís vegna mótmælaöldu sem gengið hefur yfir landið.

Í frétt Reuters um lánveitinguna segir hins vegar, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið tregur til að semja við Egypta vegna óvissu í landsmálum, ekki síst í stjórnmálum. Til marks um óvissuna hafi neðri deild egypska þingsins verið leyst upp um mitt síðasta ár og boðað til kosninga. Kosningarnar voru fyrirhugaðar í næstu viku.