Í lok mánaðarins verða þrjú fasteignafélög skráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Sem stendur eru á markaði fasteignafélögin Reginn, sem skráð var árið 2012, og Reitir sem skráð var fyrir viku síðan. Í vikunni var hlutafjárútboð Eikar fasteignafélags en stefnt er að því að félagið verði skráð á markað 29. apríl næstkomandi.

Saman eiga félögin um 11,3% af fullbúnu atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en þrátt fyrir það er markaðshlutdeild þeirra samkvæmt úttekt Samkeppniseftirlitsins frá því í fyrra samanlagt 80-85% á sama svæði.

Reitir eru stærstir

Stærst félaganna er Reitir en það hefur 130 fasteignir og 410.000 fermetra til útleigu og höfðu leigutekjur upp á 8,5 milljarða króna á síðasta ári. Þar á eftir kemur Eik með 106 fasteignir, 273.000 fermetra til útleigu og leigutekjur upp á 3,8 milljarða króna. Reginn hefur 52 fasteignir í eignasafni sínu, 224.500 fermetra til útleigu og námu leigutekjur félagsins um 4,2 milljörðum króna árið 2014.

Töluverðar breytingar urðu á rekstri Reita og Eikar á síðasta ári í aðdraganda skráningar. Stefnt hefur verið að skráningu Reita í langan tíma en hún tafðist nokkuð vegna deilna Seðlabankans við erlenda lánardrottna félagsins. Þær deilur leystust á síðasta ári og á svipuðum tíma gaf félagið út nýtt hlutafé fyrir 17 milljarða og endurfjármögnuðu félagið með útgáfu 25,5 milljarða skuldabréfs og 25,5 milljarða láni frá Íslandsbanka. Sú endurfjármögnun tvöfaldaði eigið fé félagsins. Það nam 39,9 milljörðum króna í árslok 2014 en var 20,6 milljarðar árið áður.

Eik tilkynnti á síðasta ári að það hefði keypt Landfestar sem var í 100% eigu Arion banka auk þess sem félagið keypti fasteignafélagið EF1 hf. Með kaupunum var hlutafé aukið um samtals 9.844 milljónir króna og breyttist eignasafn félagsins þó nokkuð í kjölfarið.

Reginn keypti á síðasta ári fasteignafélagið RA 5 ehf. sem áður hét Klasi Fasteignir og fékk í kjölfarið um 28.500 fermetra af atvinnuhúsnæði í eignasafn sitt. Þess utan réðst félagið í fjárfestingar og nýframkvæmdir á árinu fyrir rúmlega 12 milljarða króna og í síðasta mánuði undirritaði félagið samkomulag um kaup á fasteignasafni Fastengis ehf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .