Rowland fjölskyldan, eigendur Banque Havilland í Lúxemborg, vill ekki að sérstakur saksóknari fái afhent gögn sem embætti hans fundu við húsleit í bankanum í febrúar á síðasta ári. Banque Havilland varð til þegar Kaupþing í Lúxemborg var skipt upp í tvennt og rekstarhlutinn seldur til Rowland fjölskyldunnar. Breska blaðið Daily Telegraph greinir frá andstöðunni í frétt í dag. Þar segir að þeir sem vinni að rannsókn málsins telji að gögnin sem fundust við húsleitina geti veitt afar mikilvægar upplýsingar um fall Kaupþings.

Embætti sérstaks saksóknara gat ekki fengið gögnin afhent fyrr en rannsóknardómari í Lúxemborg hafði úrskurðað um að það ætti að fá þau. Það gerðist loks í desember síðastliðnum, tæpum tíu mánuðum eftir að húsleitin átti sér stað. Rowland fjölskyldan hefur nú, ásamt nítján viðskiptavinum sínum, áfrýjað þeirri niðurstöðu og vilja koma í veg fyrir að embættið fái gögnin.

Lofuðu að aðstoða við rannsóknina

Sá mótþrói þykir sérstaklega athyglisverður vegna þess að þegar húsleitirnar fóru fram þá sendi Banque Havilland frá sér yfirlýsingu sem í sagði að yfirstandandi rannsókn tengdist bankanum ekki á nokkurn hátt. Verið væri að rannsaka Kaupþing. Þar kom einnig fram að bankinn myndi aðstoða við rannsóknina eins og honum væri frekast unnt.  Málefni Kaupþings fyrir bankahrun hafa verið til rannsóknar bæði hjá sérstökum saksóknara og Serious Fraud Office (SFO), efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar.

Magnús í gæsluvarðhald og rekinn frá Havilland

Í maí 2010 var Magnús Guðmundsson, þá forstjóri Banqur Havilland, úrskurðaður í gæsluvarðhald hérlendis vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á umfangsmikilli, kerfisbundinni, og skipulagðri markaðsmisnotkun sem hann er grunaður um að hafa framfylgt í starfi sínu sem forstjóri Kaupþings í Lúxemborg á árunum fyrir hrun. Hún á að hafa farið fram með lánum til tengdra  aðila sem  hafi síðan notað þau til að stýra hlutabréfum í bankanum með saknæmum hætti.  Banque Havilland sagði Magnúsi upp störfum í kjölfarið og tók Jonathan Rowland við starfinu.

Tveir fyrrum háttsettir yfirmenn Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson og Ingólfur Helgason, voru einnig hnepptir í gæsluvarðhald og Steingrímur Kárason var úrskurðaður í farbann. Þá var lýst eftir Sigurði Einarssyni hjá Interpol eftir að hann neitaði að koma til Íslands til yfirheyrslu nema gegn vilyrði um að hann yrði ekki handtekinn.