Toyota umboðið hefur sent eigendum Toyota bíla sem keyptu bílana sína ekki hjá umboðinu bréf allt frá því á fimmtudag í síðustu viku.

VB.is hefur eitt þessara bréfa undir höndum, en það er vegna bíls sem fluttur var inn frá Þýskalandi. Þar fær nýr eigandi hamingjuóskir með nýja bílinn en í leiðinni fylgja aðvörunarorð vegna viðskiptanna. Í bréfinu er bent á að aldur bílsins sé miðaður við skráningardag í Þýskalandi en ekki skráningardag á Íslandi. Þetta geti haft áhrif á endursöluverð.

Þá er einnig bent á að umboðið selji Toyota með fimm ára ábyrgð. Hugsanlegt sé að umræddur bíll, sem var fluttur inn frá Þýskalandi, geti verið með einungis þriggja ára ábyrgð.

Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota, segist ekki vita hversu mörg bréf hafi verið send. Allir geti nálgast skrá yfir þá Toyota bíla sem hafi verið fluttir inn til landsins og þeir sem hafi keypt bíla sem voru fluttir inn eftir að þeir voru nýskráðir erlendis geti átt von á bréfi frá umboðinu. „Þeir sem hafa keypt bíla á þennan hátt mega eiga von á bréfi frá okkur,“ segir Páll.

Páll segist ekki vita hve margar bílasölur hafi flutt inn Toyota án þess að fara í gegnum umboðið. „Enda snýr þetta ekki að þeim heldur bara kúnnunum, að notendur Toyota séu sáttir,“ segir Páll.