Samtök atvinnulífsins telja líklegt að tap Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslna eldri lána geti numið allt að 15 milljörðum króna frá því fyrirkomulagi húsnæðislána sjóðsins var breytt um mitt síðasta ár. Það er ríflega tveimur milljörðum meira en allt eigið fé sjóðsins var í árslok 2004.

Tap meira en allt eigið fé

SA áætlar að uppgreiðslur eldri lána Íbúðalánasjóðs síðasta árið hafi verið um 140 milljarðar króna. Sé aðeins er litið til þeirra 74 milljarða króna sem greiddar höfðu verið upp í árslok 2004, þá áætlar SA að tap Íbúðalánasjóðs nemi 7,9 milljörðum króna að óbreyttum útlánsvöxtum. Áætluð uppgreiðsla fyrir tímabilið júlí 2004 til júlí 2005 er hins vegar 140 milljarðar króna. Sé litið til þeirrar fjárhæðar, megi ætla að tap Íbúðalánasjóðs að óbreyttum útlánsvöxtum nemi um 15 milljörðum króna eða rúmlega öllu eigin fé sjóðsins.

Eigið fé sjóðsins var í lok sl. árs 12,7 milljarðar króna. Með hliðsjón af því að í útreikningunum er hvorki gert ráð fyrir uppgreiðslum í framtíðinni, lækkandi útlánsvöxtum né gengið út frá því vaxtaálagi sem Íbúðalánasjóður telur sjálfur hæfilegt, verði forsendur útreikninganna að teljast varlegar.

Til að bregðast við aðsteðjandi vanda hefur Íbúðalánasjóður m.a. lánað fjármálafyrirtækjum yfir 80 milljarða króna með ríkisábyrgð en þessi lánastarfsemi samræmist tæpast starfsheimildum sjóðsins og nánast er öruggt að sjóðurinn muni tapa á henni.

SA ítreka að markaðsvæðing íbúðalána er eðlileg staðreynd sem ber að viðurkenna og að Íbúðalánasjóður á einkum að gegna félagslegu hlutverki. Mikilvægt er að brugðist verði við þeirri alvarlegu stöðu sem Íbúðalánasjóður er kominn í.