Að sögn Sigrúnar Rögnu Ólafsdóttur, fjármálastjóra Íslandsbanka, skýrist 5,7% vaxtamunur bankans á fyrri árshelmingi meðal annars af háu eigin fjár. Eiginfjárhlutfall bankans var 21,5% í lok júní.

„Hátt eigið fé gefur bankanum hærri vaxtatekjur, sem aftur leiðir af sér hærri vaxtamun. Jafnframt er bankinn að innleysa afföll af því lánasafni sem hann keypti af Glitni. Afföllin eru til komin vegna þess að stór hluti lánasafnsins ber lága vexti í samræmi við það vaxtaumhverfi sem gamli bankinn bjó við. Það gjörbreyttist við fall bankanna,“ segir Sigrún Ragna. Nú séu afföll innleyst eftir því hvað bankinn telur nauðsynlegt til að ákvarða vaxtakjör í samræmi við núverandi fjármögnunarkostnað.