Eignarhaldsfélagið Fons, sem stjórnað er af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, hefur samþykkt að kaupa 35% hlut í bresku leikfangaversluninni Hamleys, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp, en í samtali við Viðskiptablaðið í gær sagði Pálmi að Fons ætlaði sér að taka virkan þátt í rekstrinum og að hann hafi trú á fyrirtækinu.

Hamleys-leikfangaverslunin, sem er enn að mestu leyti í eigu Baugs, var rekin með 3,6 milljón punda (499,8 milljón króna) tapi á reikningsárinu sem endaði í mars í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá Bretlands, Companies House. Eftir viðskiptin eiga Baugur og stjórnendur 65% hlut í Hamleys.

Lengi hefur verið talið að Hamleys sé ein af þeim fjárfestingum Baugs sem í Bretlandi sem hefur skilað afkomu undir væntingum. ?Það er ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á því að fara inn," sagði Pálmi, en hann hefur sérhæft sig í að finna kauptækifæri í fyrirtækjum sem stutt er í að viðsnúningur verður á. Hann neitaði að tjá sig frekar um ástæður kaupanna.

Hamleys seldi bandaríska leikfangafyrirtækinu Build-A-Bear Workshop eininguna The Bear Factory fyrir 41,1 milljón Bandaríkjdala, sem samsvarar rúmlegar þremur milljörðum króna, fyrr á þessu ári og er Hamleys nú að mestu leyti skuldlaust. Baugur borgaði 59 milljónir punda fyrir Hamleys og fylgdi Bear Factory með í kaupunum.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að ef Baugi og FL Group tekst að kaupa House of Fraser séu miklir möguleikar á því að koma Hamleys-vörum að í verslunum House of Fraser. Fyrirtækin vinna nú áreiðanleikakönnun á House of Fraser, en Baugur hefur gert óbindandi kauptilboð í félagið að virði 351 milljón punda. Einnig er möguleiki á frekari sókn á alþjóðlega markaði og stendur til að flytja út Hamleys-vörumerkið.

Hamleys hefur þegar ákveðið að opna þrjá sérleyfissölustaði í stórverslunum Magasin du Nord, sem er hluti af útrásarfyrirætlunum fyrirtækisins á erlendri grundu. Hamleys starfrækir verslanir í Magsin du Nord-stórverslunum við Kóngsins-nýjatorg í Árósum og Lyngby og hefur reksturinn farið vel af stað, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.