Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í kvöld að Íslendingar ættu ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave reikningana.

Ella myndum við einangrast sem þjóð.

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fara nú fram á Alþingi.

Jóhanna kom víða við í stefnuræðu sinn en er hún kom að Icesave-málinu sagði hún: „Kalt hagsmunamat segir mér að við eigum ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave reikningana. Ef við fáum ekki lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða vinaþjóðum og fjármagn á næstunni til þess að styrkja gjaldeyrisforðann, mun afnám gjaldeyrishafta frestast, gengi haldast veikt, vaxtalækkun tefjast og botninn detta úr lánshæfismati ríkisins sem hafa mun í för með sér mun dýrari endurfjármögnun lána," sagði hún og hélt áfram.

„Þá mun endurreisn atvinnulífsins verða teflt í tvísýnu, atvinnuleysi stóraukast og þar með vandi heimilanna í landinu. Ef við viljum ekki einangrast sem þjóð og loka öllum samskiptaleiðum við alþjóðasamfélagið þá er okkur nauðugur einn kostur að leiða Icesave-málið til lykta. Það er þetta mat og hagsmunir fólksins í landinu sem ræður minni afstöðu."

Hún sagði að þeir sem hrópuðu nú hæst og byðu aðrar lausnir væru að stefna hagsmunum almennings hér á landi í hættu til lengri og skemmri tíma litið.  „Hér höfum við ekkert val. Þetta bið ég fólk að hafa í huga," sagði forsætisráðherra meðal annars á Alþingi í kvöld.