Eimskip tók í dag í notkun nýja þjónustu fyrir minni sendingar frá meginlandi Evrópu og hingað til lands. Þjónustan heitir eBOX og er hún hraðari og einfaldari. Séð verður til þess að sendingar merkar eBOX fari síðastar um borð í gáma og fari fyrstar út.

Haft er eftir Matthíasi Matthíassyni, framkvæmdastjóra sölu- og viðskiptaþjónustu hjá Eimskipi, að skipaflutningar hafi lítið breyst á undanförnum árum eða frá gámavæðingunni á áttunda áratug síðustu aldar.  Það sama verður hins vegar ekki sagt um þarfir viðskiptavinanna.

„Nú finnum við  að þörfin fyrir einfalda og hraða þjónustu fyrir smærri sendingar hefur verið að aukast jafnt og þétt,“  segir hann.

Matthías segir ástæðurnar m.a. þær að aukin áhersla sé á lausnir með stuttum fyrirvara og minna lagerhald. „Það er oft hagkvæmara að panta minna í einu en oftar. Með því sparast t.d. fjármagnkostnaður sem fyrirtæki og einstaklingar horfa í auknum mæli á. Það má segja að  eBOX sé okkar leið til að mæta þessari þróun. Hægt er að fara inn á eBOX á netinu hvenær sem er sólarhringsins, reikna út flutningskostnað og bóka sendingar frá öllum helstu stöðum í Evrópu á einfaldan og fljótlegan hátt,“ segir hann.

Eimskip er með fjögur skip í áætlunarsiglingum á milli Íslands og Evrópu og býður því upp á tengingar við öll helstu viðskiptalönd Íslendinga í Evrópu. Flutningstíminn frá helstu höfnum í Evrópu er frá 3-5 virkum dögum frá því skipið leggur úr höfn í þar til varan er komin heim að dyrum á Íslandi.

„Við leggjum áherslu að eBOX gámarnir séu með þeim síðustu um borð í erlendu höfnunum og þannig þeir fyrstu í land á Íslandi.  Viðskiptavinum stendur að sjálfsögðu einnig til boða að láta okkur sjá um tollafgreiðslu og heimakstur á sendingunum. Með því tryggjum við hraða og örugga þjónustu á eBOX sendingunum alla leið heim að dyrum sem er einfalt og þægilegt,“ segir Matthías í tilkynningunni.