Hæstiréttur dæmdi fyrr í dag Eimskipafélagið til að greiða TM rúmlega 10 milljónir króna auk dráttarvaxta og 750 þúsund krónur í málskostnað, vegna greiðslu á andvirði saltfisksfarms sem rænt var með vopnavaldi á Ítalíu vorið 2005.

Málavextir eru þeir helstir að Eimskip tók að sér í mars 2005 flytja saltfiskfarm frá Reykjavík til Caserta á Ítalíu, en farmurinn glataðist í vopnuðu ráni skammt frá áfangastað. TM greiddi tjónþola bætur í kjölfarið en taldi sig hafa endurkröfurétt á hendur skipafélaginu. Lagt var til grundvallar að ránið hefði átt sér stað á óvöktuðu bifreiðastæði við þjónustumiðstöð sem væri nefnd Teano Ovest.

Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að meðal þeirra sem ynnu við flutninga á Ítalíu væri umrætt svæði þekkt fyrir vopnuð ráð á förmum flutningabíla. Hefði því verið komið upp vöktuðum bílastæðum á Ítalíu fyrir flutningabifreiðar. Bifreiðastjóranum, sem annaðist flutning farmsins, hefði ekki verið gefin sérstök fyrirmæli um að nota slík bifreiðastæði. Varð að leggja til grundvallar að hið óvaktaða bifreiðastæði, sem hann hafði notað, hefði ekki verið eins öruggt og vöktuð bifreiðastæði. Hefði Eimskip því ekki sannað að tjónið yrði rakið til atvika sem félagið gat ekki komist undan eða af afleiðingum þeirra sem fyrirtækið gat ekki hindrað, og því ábyrgt fyrir farminum og þar með greiðslu til tryggingafélagsins.