Kiwanishreyfingin, Eimskip [ HFEIM ] og Safalinn hafa gert samning til næstu þriggja ára um kaup og dreifingu á hjálmum til allra barna í fyrsta bekk grunnskóla landsins. Áætlað markaðsvirði samningsins er um 20 milljónir króna. Hjálmarnir eru af gerðinni Atlas Rockskipper-gerð frá Safalnum.

Í fréttatilkynningu vegna samkomulagsins segir að undanfarin fjögur ár hafi Eimskip og Kiwanishreyfingin gefið öllum börnum í fyrsta bekk grunnskólanna hjálm, til nota á reiðhjólum, hlaupahjólum, línuskautum og hjólabrettum. Hátt í 20 þúsund börn hafa notið góðs af þessari gjöf Eimskips og Kiwanis og hafa hjálmarnir nú þegar sannað gildi sitt.


Haft er efir Gylfa Ingvarssyni umdæmisstjóra Kiwanis í tilkynningunni að Kiwanishreyfingin er ákaflega þakklát góðum stuðningi Eimskips og við fögnum þessum samningi. “Kiwanishjálmarnir hafa vakið verðskuldaða athygli á heimsvísu innan hreyfingarinnar. Það fellur líka mjög vel að alheimsmarkmiðum Kiwanis, sem er að hjálpa börnum heimsins.“


Þar er einnig haft eftir Guðmundi Davíðssyni forstjóra Eimskipa að Eimskip leggi mikla áherslu á öryggismál í allri starfsemi sinni og mikilvægt er að fyrirtæki eins og Eimskip styðji framtak á borð við hjálmaverkefnið. “Um 20 þúsund börn hafa nú fengið slíka hjálma og má gera ráð fyrir að á næstu þremur árum bætist annar eins fjöldi við,“ sagði Guðmundur.