Eimskip, dótturfélag Avion Group, hefur gengið frá kaupum á 65 % hlut í finnska skipafélaginu Containerships, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar

Fyrirtækin munu, ásamt litháska skipafélaginu Kursiu Linija, taka höndum saman og mynda eitt stærsta flutningabandalag Evrópu í styttri siglingum (short sea) undir nafninu Containerships Group. Saman munu fyrirtækin reka 41 skip og hafa yfir að ráða 30.000 gámaeiningum. Að ósk seljanda er kaupverðið trúnaðarmál en kaupin eru fjármögnuð með eigin fé og lánsfé, segir í tilkynningunni.

Container Finance Ltd Oy mun eiga 35 % hlut í Containerships Group en Eimskip hefur kauprétt á þessum hlut að ákveðnum tíma liðnum.

Fyrr á árinu eignaðist Eimskip alla hluti í skipafélaginu Kursiu Linija, eina litháska skipafélaginu á Eystrasaltssvæðinu sem býður door to door flutningaþjónustu til og frá Eystrasaltsríkjunum, Póllandi, Rússlandi, Bretlandi og Norður-Evrópu. Kursiu Linija verður dótturfélag Containerships að fullu og verður því héðan í frá hluti af Containerships Group, segir í tilkynningunni.

Saman munu fyrirtækin reka 11 skip á Eystrasaltssvæðinu, vera með 200 milljón evra veltu, 6% EBITDA og rúmlega 500 starfsmenn. Containerships Group munu hafa höfuðstöðvar í Helsinki í Finnlandi en markaðssvæði félagsins verður Eystrasaltssvæðið. Skip félagsins munu hafa reglulegar viðkomur í Helsinki, St.Petersburg, Teesport, Tilbury, Hamburg, Rotterdam, Aarhus, Gdansk and Södertälje.

Þann 1. janúar 2007 mun Hr. Sigurjón Markússon taka við störfum sem forstjóri Containerships en þangað til mun Hr. Kimmo Nordström gegna störfum forstjóra en mun síðar taka við störfum sem stjórnarfomaður félagsins.

"Ég er mjög ánægður með þetta samstarf. Kaupin á 65% hluta Containerships styðja vel við framtíðarsýn okkar um að vera markaðsleiðandi flutningafyrirtæki með alhliða flutningaþjónustu á Norður Atlantshafi og með tengingar og starfsemi í lykilhöfnum í Evrópu," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips.

"Það liggur mikil þekking og gott mannafl að baki Containerships, Kursiu Linija og Eimskips og samstarf þessara þriggja fyrirtækja mun skila sér í aukinni og umfangsmeiri þjónustu til viðskiptavina," bætti hann við.

Kimmo Nordström, forstjóri Containerships, sagði að ákvörðun Containerships um þátttöku í þessu samstarfi hafi ekki verið léttvæg. "En Eimskip hefur hinsvegar sannfært okkur um virðisaukann sem af því hlýst. Í dag gengur rekstur Containerships betur en nokkru sinni fyrr og áherslur á heildarlausnir fyrir viðskiptavini okkar, ásamt miklum fjárfestingum í Rússlandi, hafa reynst réttar,"

"Fjölskyldurekið fyrirtæki hefur hinsvegar takmarkaðar auðlindir fjárhagslega. Með Eimskip mun Containerships verða betur í stakk búið til að fjárfesta í vexti og viðhalda útrás okkar til Rússlands. Containerships býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á rússneska markaðnum ásamt frábæru starfsfólki og víðtæku þjónustukerfi og mun Containerships Group njóta góðs af því," sagði Nordström.