Gengi hlutabréfa Eimskips lækkaði mikið í Kauphöllinni í gær, eða um 4,96% í 499 milljóna króna veltu. Má ástæðuna að miklum hluta rekja til umfjöllunar RÚV í fyrrakvöld um að starfsmenn þess hefðu verið kærðir til sérstaks saksóknara vegna gruns um ólöglegt samráð.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir í samtali við Viðskiptamoggann að tekið hefði verið til skoðunar að taka bréf Eimskips ekki til viðskipta við opnun markaða í dag. Hins vegar hafi verið ákveðið að viðskipti skyldu fara fram þar sem hagsmunir hluthafa fyrir því væru ríkir.

Kristján Markús Bragason, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir jafnframt í samtali við Viðskiptamoggann að kæran komi sér illa fyrir Eimskip sem skráð félag, þar sem allur órói umfram undirliggjandi rekstur geti gert það að verkum að félag verði síðri valkostur í augum fjárfesta. Hann efast þó um að lækkunin verði varanleg og muni hún líklega ganga til baka með tímanum.