Eimskipafélagið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af kröfu Baldurs Guðnasonar, fyrrverandi forstjóra þess, um greiðslu launa í tvö ár, allt til loka febrúar 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip en sýknan byggir á því að að Baldur hafi misnotað aðstöðu sína og því beri að ógilda starfslokasamning við hann.

Baldur krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans gagnvart Eimskip til óskertra launa, orlofslauna og lífeyrissjóðsframlaga frá 1. maí 2008 til og með 28. febrúar 2010 á grundvelli viðauka við starfssamning.

Mánaðarlegar greiðslur hefðu verið um 56.520 evrur á mánuði, þ.e. laun, orlof og lífeyrisframlag. Miðað við gengi evru í dag er um 10 milljónir að ræða á mánuði í tæp 2 ár.

Fram kemur í tilkynningunni að Eimskip hafi byggt sýknukröfu sína m.a. á því að ráðningarsamningi Baldurs hafi verið rift, að hann hafi beitt svikum við gerð viðauka á starfssamningi, þ.e  óheiðarleika og ósanngirni af hálfu Baldurs.

Loks byggði félagið varnir sínar á því að forsendur fyrir viðauka við ráðningarsamning Baldurs hafi brostið.

Héraðsdómur féllst á það með Eimskip að Baldur hefði, gegn betri vitund, misnotað aðstöðu sína og bæri því að ógilda samninginn og féllst á sýknukröfu félagsins.