Tap Eimskipafélagsins eftir skatta var 38,9 milljónir evra (4,3 milljarðar króna) á fyrsta ársfjórðungi 2008, samanborið við 5,6 milljóna evra tap á sama tíma fyrir ári (615 milljónir króna). Tap á tímabilinu skýrist af háum fjármagnsliðum en stefnt er að sölu eigna á öðrum ársfjórðungi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, það er EBITDA, nam 39,7 milljónum evra (4,4 milljarðar króna) á fjórðungnum sem er aukning um 55,6% frá fyrsta ársfjórðungi á síðasta ári. Framlegðarstig hefur einnig aukist og er nú 9,0%, í samræmi við áætlanir stjórnenda.

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 440,8 milljónum evra (48,4 milljarðar króna), sem er 44% tekjuaukning á milli ára. Undirliggjandi vöxtur samstæðunnar er um 10% á fjórðungnum og í samræmi við áætlanir stjórnenda.

„Góður árangur náðist í Bandaríkjunum og Kanada, minni vöxtur varð í Bretlandi en búist var við en allar aðrar einingar félagsins skiluðu vexti og afkomu eins og búist var við," segir í fréttatilkynningu.

„Árið fer ágætlega af stað hjá okkur og ánægjulegt að sjá góðan árangur í Norður Ameríku, eins er okkur að ganga vel að byggja upp starfsemi okkar í Asíu," segir Stefán Ágúst Magnússon, forstjóri Eimskips, í fréttatilkynningu.

„Þá eru tekjur og framlegð í samræmi við okkar væntingar og munum við sjá hvorutveggja aukast á síðari hluta ársins. Fjármagnsliðir hafa mikil áhrif á afkomu félagsins á tímabilinu en við stefnum að því að ljúka sölu eigna í Norður Ameríku á öðrum ársfjórðungi, sem mun lækka vaxtakostnað félagsins umtalsvert.

Samhliða undirliggjandi vexti samstæðunnar munum við halda áfram að samþætta starfsemina og ná fram samlegðaráhrifum frá nýlegum fyrirtækjakaupum.“