Tap Eimskipafélagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs (nóv. `08 – jan. `09) nam 40,2 milljónum evra samanborið við tap upp á 38,9 milljóna evra tap á sama tíma á síðasta ári.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Eimskipafélaginu en eins og áður hefur verið tilkynnt vinnur félagið að fjárhagslegri endurskipulagningu með innlendum og erlendum ráðgjöfum.

Í tilkynningunni kemur fram að rekstrartekjur félagsins námu 131,1 milljónum evra á tímabilinu samanborið við 171,9 milljónir evra á sama tíma í fyrra og lækkar því um 23,7% milli ára.

Rekstrargjöld námu 130,1 milljónum evra (1F 2008: 160,2 milljónir evra) og lækkuðu um 18,7% milli ára.

Þá nam hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) 1 milljónum evra, eða 0,7% í hlutfalli af tekjum. EBITDA lækkaði um 91,7% frá fyrra ári þar sem hún var 11,8 milljónir evra, eða 6,8% af tekjum.

Heildarfjármagnskostnaður félagsins var 23,7 milljónir evra á 1F, þar af var gengistap 6 milljónir evra.

Þá voru heildareignir í félagins við lok ársfjórðungsins 1.776 milljónir evra en heildarskuldir 1.950,5 milljónir evra. Eigið fé í lok fjórðungsins var neikvætt um 174,5 milljónir evra.