Eimverk Distillery var valinn áhugaverðasti matarsprotinn 2016 á sýningunni Matur og nýsköpun sem haldin var í Húsi sjávarklasans í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Þetta er í fyrsta sinn sem sýningin er haldin og í fyrsta sinn sem áhugaverðasti matarsprotinn er veittur. Íslenski sjávarklasinn stóð fyrir Matur og nýsköpun en um 30 – 40 fyrirtæki tóku þátt og kynntu framleiðslu sína. Matarsprotar eru sprotafyrirtæki sem tengjast matvælum allt frá matreiðslu og framleiðslu á matvælum yfir í matartækni og viðskipti með matvæli.

Alls tóku ellefu fyrirtæki þátt í matarsprotakeppninni sjálfri, en þar mátti meðal annars finna íslenskt sinnep, franskt crepes, víski, gin og ákavíti og mysudrykk úr íslenskum berjum og villijurtum.

Dómnefndin var skipuð þeim; Eddu Hermannsdóttir frá Íslandsbanka, Kjartani Erni Ólafssyni frumkvöðli og fjárfesti og  Ara Fenger, forstjóra 1912. Dómnefndin valdi fyrirtækið Eimverk Distillery sem áhugaverðasta matarsprota ársins 2016.

Eimverk Distillery framleiðir 100% íslenskt áfengi úr hágæða innlendu hráefni. Þar á meðal er; Flóki viský, Vor gin og Víti ákavíti. Við framleiðsluna nýtir Eimverk 100% íslenskt bygg og annað innlent hráefni. Allar vörunar eru seldar á Íslandi ásamt því að vera fluttar út til 13 landa. Eimverk var stofnað árið 2009 af Haraldi Hauki Þorkelssyni, eiginkonu hans Sigrúnu Jenny Bárðardóttir og bróður hans Agli Gauta Þorkelssyni.

Markmiðið með verðlaununum er að vekja athygli á þeim gríðarlega krafti sem einkennir frumkvöðlastarfsemi í kringum matvæli og gefa frumkvöðlum tækifæri til þess að kynna hugmyndir sínar og áætlanir fyrir aðilum úr viðskiptalífinu. Áætlað er að veita viðurkenninguna árlega,“ segir í tilkynningunni.