Félagsmenn Eflingar stéttarfélags leggja upp með kjarasamning til eins árs, 35 þúsund króna lágmarkslaunahækkun í launatöflu og að lægsta upphafstala í launatöflu verði 240 þúsund krónur. Einnig gera þeir kröfu um að í launatöflunni verði aukin aftur bil á milli flokka og þrepa og einnig að eingreiðsla mæti þeim launahækkunum sem urðu umfram almennar kjarasamningshækkanir á síðasta samningstímabili. Þá er lögð áhersla á að viðræður um aðal- og sérkjarasamninga fari fram samhliða launaviðræðum.

Samningar á almenna markaðnum hafa verið lausir frá því í lok febrúar á þessu ári og fer Flóabandalagið með samningsumboð fyrir Eflingu, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur. Fjöldi félagsmanna í Flóabandalaginu á almenna markaðnum er rétt innan við 20.000.

„Ég hef verið töluvert lengi við gerð kjarasamninga en ég tel að þetta sé ein allra flóknasta staða sem komið hefur upp í mjög langan tíma,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar og samninganefndar Flóabandalagsins um stöðu kjaraviðræðna.

Hann segir að það sé mat Flóabandalagsins að ákveðið árangursleysi sé í kjaraviðræðum og því færist viðræðurnar á annað form. „Við höfum að sjálfsögðu áfram það verkefni að vinna að lausnum við gerð kjarasamninga sem er þetta meginverkefni en í leiðinni þá erum við sestir líka yfir þá stöðu að þurfa hugsanlega að boða til átaka í seinni hlutanum í maímánuði,“ segir Sigurður.

„Það er þannig að menn hafa verið í viðræðum í sambandi við sérkjaramál félagsins og þau voru svo sem öll komin til enda. Þeim atriðum sem þar út af stóðu var öllum vísað inn á þetta borð varðandi launaþáttinn og þar er staðan sú að þær viðræður eru í strand ásamt öllum öðrum viðræðum sem hafa verið í gangi gagnvart Samtökum atvinnulífsins.“

Þá segir hann að kröfugerðirnar séu mjög mismunandi. „Það eru mismunandi áherslur innan Alþýðusambandsins, bæði hvað varðar efnisinnihald og eins tímalengd. Það hefur vafalítið truflað að einhverju leyti það að finna lausn í þessum málum. Svo heyrir maður það líka að það eru aðrar áherslur í opinbera umhverfinu þar sem komin eru verkföll og hefur líka áhrif á það hvernig þetta flækjustig er.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .