Aðspurður um mögulega afkomu erlendra olíufélaga inn á íslenskan markað segist Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, ekki sjá fyrir sér að erlent félag komi hingað til að byrja frá grunni. Erfitt sé að fá lóðir fyrir bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og þess utan þyrfti það félag að koma sér upp nýjum birgðastöðum. Nær væri að erlent félag keypti sig inn í eða tæki yfir rekstur félags sem þegar væri starfandi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Viðskiptablaðsins við Einar Örn Ólafsson, forstjóra Skeljungs, þegar hann er spurður um tryggð viðskiptavina við olíufélögin. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er birtur hér í heild sinni.

En hvernig er tryggð viðskiptavina við olíufélögin, halda menn trúnað við sitt félag eða grípa menn bara í næstu bensínstöð?

„Það eru mjög margir með kort eða lykla hjá því félagi sem þeir versla öllu jafna við og fá þannig einhvern ákveðinn afslátt. Athuganir okkar hafa þó sýnt að margir eru með kort frá fleira en einu félagi,“ segir Einar Örn.

„Það eru mjög margir Íslendingar sem eiga sér 1-2 bensínstöðvar og eru vanafastir á það hvar þeir taka bensín. Þetta eru oftast stöðvar sem eru nálægt heimilum eða vinnustað fólks, jafnvel hvoru tveggja. Miklar breytingar á hlutdeild gerast því sjaldnast hratt, en okkur hefur reyndar miðað í rétta átt undanfarið. En eins og ég segi þá eru menn vanafastir og flestir versla oft í mánuði á sama staðnum.“

Það gleymist oft að fjalla um fyrirtækjamarkaðinn þegar kemur að kaupum á eldsneyti en fyrirtæki eru þó töluvert stærri kaupandi á eldsneyti en heimilin. Aðspurður segir Einar Örn að sá markaður gangi vel og þar vegur sjávarútvegurinn eins og gefur að skilja þyngst.

„Eldsneytisþörf fyrirtækja er nokkuð stöðug. Það er mikil barátta á þessum markaði. Menn eru ekki bara að berjast um útgerðirnar og flugfélöginn, það er líka barist um fyrirtæki sem eru með tíu bíla í rekstri og þau fyrirtæki eru ekki síður mikilvæg,“ segir Einar Örn.

Nánar er rætt við Einar Örn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.