Lárus Welding, forstjóri Glitnis, var gestur CNBC Europe í morgun þar sem hann ræddi afkomu Glitnis á öðrum ársfjórðungi og horfurnar í íslensku efnahagslífi.

Lárus segir að Glitnir muni halda áfram að einbeita sér að kjarnastarfsemi og að einbeita sér að þeim mörkuðum sem bankinn er sterkur á fyrir, þ.e. sjávarútvegsafurðum og endurnýjanlegri orku, þegar kemur að útlánum.

„Þegar bankar eiga erfitt með fjármögnun verða þeir að einbeita sér að þeim mörkuðum sem þeir hafa sterka stöðu á,“ sagði Lárus.

Lárus benti á að íslenska smákreppan („mini-crisis“) árið 2006 hafi gert íslensku bankana vara um sig og undirbúið þá vel undir lánsfjárkreppuna sem nú ríkir á mörkuðum, sem hafi siglt betur undirbúnir en margir aðrir bankar inn í hana.

Aðspurður hvenær hann teldi lánsfjárkreppuna ganga yfir sagðist Lárus búast við að aðstæður yrðu erfiðar a.m.k. út næsta ár og benti á að Glitnir hafi þegar tryggt sér fjármagn til rekstrar út þann tíma.

Rætt var um góða lausafjárstöðu Glitnis í þættinum og að bankanum hafi þegar tekist að afla 2,5 milljörðum evra af fjármagni á þessu ári, á talsvert betri kjörum en skuldatryggingaálag hans gefur til kynna. Í framhaldinu spurði þáttastjórnandi Lárus hvort til greina komi að nota þetta lausafé til að kaupa annan banka og stækka við sig, en Lárus sagði það ekki vera stefnuna.