Einkaneysla Bandaríkjamanna jókst um 1% á milli maí og apríl, sem er mesta aukning síðan í október 2001. Voru það öðru fremur kaup á bílum og öðrum varanlegum neysluvörum sem leiddu til þessarar aukningar. Á sama tíma hækkaði vöruverð um 0,5% sem skýrir því um helming af aukningu einkaneyslunnar. Tekjur neytenda jukust á sama tíma um 0,6% og stafar það meðal annars af mikilli fjölgun starfa. Störfum á vinnumarkaði fjölgaði um 248.000 í maí og á fyrstu fimm mánuðum ársins hefur þeim fjölgað um 1,2 milljónir segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er ennfremur bent á að viðbrögðin á skuldabréfamarkaði voru þau að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækkaði lítillega vegna þess að tölurnar voru umfram væntingar markaðarins. Hlutabréfamarkaðir hækkuðu aftur á móti, bæði vegna þessara talna en aðallega vegna stjórnarskiptanna í Írak sem leiddu til verðlækkana með olíu á heimsmörkuðum. Þegar þetta er skrifað (kl. 16:00) hafði Dow Jones hækkað um 0,71% í dag, Nasdaq um 0,51% og S&P 500 um 0,56%.