Einkaneysla jókst um 0,2% á milli mánaða í janúar síðastliðnum, samkvæmt tölum bandaríska viðskiptaráðuneytisins sem birtar voru í dag. Þetta er í takt við væntingar. Vöxtur einkaneyslu nemur 1,2% á ársgrundvelli.

Bandaríska fréttastofan CNBC segir þetta góð tíðindi enda nemur hlutfall einkaneyslu 70% af hagvaxtartölum vestanhafs. Á móti bendir fréttastofan á að kaupmáttur Bandaríkjamanna hafi dregist mikið saman eftir áramótin. Laun Bandaríkjamanna lækkuðu um 3,6% á milli mánaða og hefur annað eins ekki síst í tuttugu ár eða síðan í janúar árið 1993. Hluti af ástæðunni er sá að fyrirtæki greiddu bónusa og aðrar sporslur fyrir áramótin í stað þess að gera eftir þau til að koma sér hjá skattahækkunum hins opinbera.