*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Innlent 25. júní 2019 13:40

Fyrirkomulagið skekki samkeppnisstöðu

Ríkisendurskoðandi hefur skilað úttekt sinni um stöðu Íslandspósts sem unnin var að beiðni þingsins.

Jóhann Óli Eiðsson
Viðbygging við flutningamiðstöð fyrirtækisins að Stórhöfða reyndist of stór biti fyrir félagið.
Haraldur Guðjónsson

Það skekkir augljóslega samkeppnisstöðu á póstmarkaði að samkeppnisrekstur Íslandspósts ohf. (ÍSP) sé ekki látin bera hlutdeild í föstum kostnaði þó sá hluti nýti sér sömu framleiðsluþættina. Þetta kemur fram í stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á stöðu ÍSP sem unnin var að beiðni fjárlaganefndar. Þá er því einnig slegið föstu að sendendur bréfpósts innan einkaréttar hafi í reynd greitt niður alþjónustu ÍSP utan einkaréttar sem ekki stendur undir sér.

Úttektin var unnin eftir að fjárhagsvandi fyrirtækisins kom upp á yfirborðið. Í fyrra óskaði félagið eftir því að fá 500 milljón króna neyðarlán frá ríkinu til að mæta lausafjárþurrð þess. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að við skoðun eiganda þess, það er íslenska ríkisins, á félaginu hafi komið í ljós að 500 milljónir myndu ekki duga og lagði eigandinn því til að félagið fengi allt að 1,5 milljarð að láni. Var það samþykkt á þingi fyrir jól.

Í mars á þessu ári lá síðan fyrir að ekki væri möguleiki á að fyrirtækið gæti endurgreitt lánið og var því samþykkt á aðalfundi þess, að hluthafafundi undangengnum, að heimilt væri að hækka hlutafé þess um allt að 1,5 milljarð á þessu ári. Samkvæmt samþykktum félagsins, sem birtar eru á heimasíðu þess, hefur hlutafjáraukningin ekki enn komið til framkvæmda.

Við lánveitinguna síðasta haust var því slegið föstu, af fjármála- og efnahagsráðuneytinu (FJR), að lánveitingin fæli ekki í sér ólögmæta ríkisaðstoð, sem bönnuð er samkvæmt EES-samningnum, þar sem það væri veitt á markaðskjörum. Þá væri hún ekki til þess fallin að raska samkeppni. Í skýrslu ríkisendurskoðanda er bent á að það heyri undir samkeppnisyfirvöld að meta hvort lánveitingin væri í samræmi við samkeppnislög en það virðist ekki hafa verið gert.

„Augljóslega skekkir það samkeppnisstöðu keppinauta [Íslandspósts ohf.] sem þurfa við sína verðlagningu að reikna með bæði breytilegum og föstum kostnaði við þá starfsemi sem er í samkeppni við [fyrirtækið],“ segir í úttektinni. 

Þá er í skýrslunni vikið að því að samskiptaleysi hafi verið milli stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins og að ekki hafi verið leyst úr þeim hnút fyrr en að rekstarvandi þess varð öllum augljós í fyrra. Fundargerðir stjórnar, sem Viðskiptablaðið hefur fengið afrit af í krafti upplýsingalaga, bera þess glöggt merki. Þá hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir því að „óþægilegum stjórnarmönnum“ hafi verið skipt út þegar þeir spurðu spurninga sem hugnuðust ekki framkvæmdastjórn félagsins.

Samskiptavandi milli eftirlitsaðila og fyrirtækisins er einnig rakinn en félagið hefur reglulega sett út á hve langan tíma Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur gefið sér til að taka ákvarðanir er varða rekstrarumhverfi þess. PFS hefur svarað því með þeim hætti að ávallt hafi vantað upp á að nauðsynleg gögn bærust frá Póstinum. Einnig er rakið að bagalegt sé að eftirlitsstofnanir og ráðuneyti virðist ekki leggja sama skilning í lög sem um starfsemina gilda og að slæmt sé að ekki sé á hreinu hve mikið eftirlit með fyrirtækinu eigi að vera.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri félagsins til fimmtán ára, sagði starfi sínu lausu á aðalfundi fyrr á þessu ári og var Birgir Jónsson ráðinn í hans stað. Tilkynnt var um skipulagsbreytingar hjá ÍSP fyrr í dag en meðal annars verður framkvæmdastjórum félagsins fækkað um tvo.

Frekar verður fjallað um skýrsluna, svo og stöðu ÍSP, í Viðskiptablaðinu í dag og á morgun.

Stikkorð: Íslandspóstur