Einkaþota í eigu brasilíska bankaveldisins J. Safra Group stendur nú á Reykjavíkurflugvelli. Þotan er af gerðinni Boeing 737-700 BBJ og var framleidd árið 2001. Safra Group er í eigu erfingja Joseph Safra, sem var ríkasti maður Brasilíu áður en hann lést í desember 2020.

Fjöldi einkaþota hefur haft viðkomu á Reykjavíkurflugvelli í sumar. Rekstrarstjóri ACE FBO, eins þriggja fyrirtækja sem þjónusta einkaþotur á flugvellinum, sagði í viðtali við RÚV fyrr í mánuðinum að hann ætti von á rúmlega 900 þotum á Reykjavíkurflugvöllinn í ár og að þær yrðu þar með fleiri en fyrir heimsfaraldurinn.

Þrír bankar og stórt fasteignasafn

Innan Safra Group samstæðunnar er brasilíski bankinn Banco Safra, svissneski einkabankinn J. Safra Sarasin og Safra National Bank of New York.

Safra Group á einnig veglegt fasteignasafn með yfir 200 fasteignum. Félagið festi kaup á þekkta glerturninum Gherkin í London, sem oft er kallaður Gúrkan hér á landi, árið 2014 fyrir 700 milljónir punda. Þá keypti félagið skrifstofuhúsnæði að 660 Madison Avenue í New York fyrir 285 milljónir dala árið 2011.

Gherkin turinn í London
Gherkin turinn í London
© epa (epa)

Safra Group var byggt upp og stýrt af Joseph Safra, sem lést í desember 2020. Auðæfi hans voru metin á 22,8 milljarða dala í ágúst 2020 og hann var þá 52. ríkasti maður heims samkvæmt auðmannalista Forbes.

Auðæfi Vicky Safra, grísku ekkju Joseph, eru í dag metin á 7 milljarða dala eða um 960 milljarða króna, samkvæmt rauntímalista Forbes. Það gerir hana að ríkustu konu Grikklands. Þá eru samanlögð auðæfi fjögurra barna þeirra metin á 7,1 milljarð dala.

Samkvæmt Forbes hefur hinn 45 ára gamli Jacob Safra umsjón með svissneska bankanum J. Safra Sarasin og Safra National Bank of New York ásamt fasteignasafni fjölskyldunnar í Bandaríkjunum. Hinn 36 ára gamli David Safra stýrir brasilíska bankanum Banco Safra ásamt fasteignasafni félagsins í Brasilíu. Joseph, sem var með Parkinsonssjúkdóminn, eyddi meira en áratugi í að búa þá undir að taka við stjórnartaumunum, að því er kemur fram í frétt Bloomberg.

Í byrjun þessa mánaðar greindi Bloomberg frá því að þriðji bróðirinn, hinn 41 árs gamli Alberto Safra, hyggist selja hlut sinn í bankaveldinu til systkina sinna. Alberto tjáði fólki í kringum sig að í kjölfar viðskiptanna gæti hann sett allt að 5 milljarða dala inn í fjárfestingafélagið sitt ASA Investments á næstu árum.

Systir þeirra Esther Safra Dayan stýrir Beit Yaacov skólanum í São Paulo sem góðgerðasamtök Safra fjölskyldunnar settu á fót.

Joseph Safra, myndaður árið 2000
Joseph Safra, myndaður árið 2000
© epa (epa)