Hluti af einkavæðingaráformum sænsku ríkisstjórnarinnar mun sennilega frestast fram yfir árið 2010 vegna umrótsins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, að því er fram kemur í viðtali við Mats Odell, ráðherra fjármálamarkaða sem hefur yfirumsjón með einkavæðingarferlinu, í Financial Times. Eitt helsta kosningaloforð ríkisstjórnar mið- og hægrimanna, var að selja eignir ríkisins fyrir um 200 milljarða sænskra sænskra króna, þegar hún var kjörin til valda fyrir um 18 mánuðum.

„Við erum að meta tímasetningar og verð. Það er hugsanlegt að hrunið á markaðnum með bandarísk undirmálslán muni hafa afleiðingar fyrir einkavæðingaráform okkar”, segir Odell.   Ríkisstjórn Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, hyggst selja endalega hlut ríkisins í sex fyrirtækjum: fjarskiptafyrirtækinu TeliaSonera, Nordea, OMX, fasteignafélaginu Vasakronan, íbúðalánasjóðnum SBAB og Vin & Sprit, sem meðal annars framleiðir Absolut vodka. Þrjú síðastnefndu félögin eru að fullu í eigu ríkisins.

Slæmar aðstæður á fjármálamörkuðum gera hins vegar að verkum að ríkisstjórnin þarf líklega að slá einhverjum sölum á frest. Odell segir að hann sé bjartsýnn á að stjórnvöldum takist upphaflegt markmið sitt um að fá um 200 milljarða sænskra króna fyrir sölurnar á eignahlut ríkisins fyrir árið 2010. Hann viðurkennir þó að yfirvöldum takist hugsanlega ekki að selja öll sex fyrirtækin eins og lagt hafi verið upp með.

Fram til þessa hafa stjórnvöld fengið 18 milljarða sænskra króna fyrir sölu á 8% eignahlut í TeliaSonera – ríkið heldur enn eftir 37% hlut – og 2,2 milljarða sænskra króna fyrir sölu á 6,6% hlut sínum í norrænu kauphallarsamstæðunni OMX.

Odell bætti því við að áform ríkisstjórnarinnar um að selja 100% eignahlut sinn í íbúðalánasjóðnum SBAB gæti verið slegið á frest, þar sem „fasteignalánafyrirtæki eru ekki beint efst á óskalista fjárfesta um þessar mundir”.

Ráðherrann viðurkenndi jafnframt að markaðsaðstæður væru ekki beint vel til þess fallnar til að ráðast í sölu á banka, en stjórnvöld áforma að selja 19,9% hlut ríkisins í Nordea, stærsta fjármálafyrirtækis Norðurlanda.