*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 30. maí 2012 09:53

Einn af eigendum Twitter á Íslandi

Tveir þekktir bandarískir fjárfestar taka þátt í íslenskri frumkvöðlaráðstefnu. Þeir tengjast Twitter, Tumblr og Zynga.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Tveir þekktir bandarískir fjárfestar sem eiga stóra hluti í fyrirtækjum á borð við Twitter, Tumblr, Foursquare og Zynga (sem framleiðir m.a. Farmville-leikina) eru staddir hér á landi og taka þátt í frumkvöðla-ráðstefnunni Start-up Iceland sem fram fer á Ásbrú í Reykjanesbæ í dag. Ráðstefnuna sitja 400 manns og seldist upp á hana fyrir nokkru. Upphaflega stóð til að ráðstefnan yrði haldin í Hörpu en vegna erfiðleika við að finna styrktaraðila var hún færð á Ásbrú.

Fram kemur í tilkynningu að ráðstefnan sé skipulögð af hópi sjálfboðaliða undir forystu indverska fjárfestisins Bala Kamallakharan sem hefur búið hér á landi um nokkurra ára skeið. Hann hefur m.a. fjárfest í Clöru og fleiri nýsköpunarfyrirtækjum. Fjárfestarnir bandarísku tóku þátt í ráðstefnunni í gegnum persónuleg tengsl hans.

Brad Burnham er annar stofnenda fjárfestingafyrirtækisins Union Square Ventures sem sérhæfir sig í fjárfestingum í ungum netfyrirtækjum. Fyrirtæki hans var á meðal fyrstu fjárfestanna í samfélagsmiðlinum Twitter, sem tæplega 150 milljón manna nota í dag. Burnham situr einnig í stjórn örbloggsíðunnar Tumblr sem nýtur vaxandi vinsælda, m.a. hér á landi.

Í för með Burnham er annar kunnur bandarískur fjárfestir, Brad Feld. Í tilkynningu segir að hann sé líklega þekktastur fyrir að hafa stofnað örfjárfestingarbúðirnar TechStars, en raunveruleikaþættir þar sem fylgst er með ungum frumkvöðlum taka þátt í búðunum hafa verið sýndir á sjónvarpsstöðinni Bloomberg. Brad Feld seldi eitt af fyrstu fyrirtækjunum sem hann fjárfesti í til Google og var síðan á meðal fyrstu fjárfestanna í leikjafyrirtækinu Zynga. En Zynga er þekkt fyrir Facebook-leiki eins og Farmville og Zynga-poker.