Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans greiddi atkvæði gegn tillögu Más Guðmundssonar seðla­bankastjóra um að halda stýrivöxtum óbreyttum á síðasta fundi nefndar­innar, sem haldinn var þann 19. mars síðastliðinn.

Vildi þessi nefndarmaður hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig með vísan til þess að verðbólguhorfur til næstu missera hefðu versnað frá síðasta fundi þrátt fyrir að gengi krón­unnar hefði styrkst. Verðbólguvæntingar til langs tíma væru enn háar og töluverður undirliggjandi verðbólgu­ og launa­þrýstingur til staðar og því brýnt að auka taumhald peninga­stefnunnar þrátt fyrir veikari efnahagsbata.

Greining Íslandsbaanka segir í Morgunkorni sínu í dag að verðbólgumæling í febrúar virðist hafa snúið þessum eina nefndarmanni peningastefnunefndar frá því að styðja óbreytta vexti yfir í vaxtahækkunarham þrátt fyrir styrkingu krónu. Í Morgunkorninu segir að verðbólgumælingin í mars, þar sem 12 mánaða verðbólga hjaðnaði að nýju úr 4,8% í 3,9%, og áframhaldandi 1,8% styrking krónu frá síðustu vaxtaákvörðun, með tilheyrandi áhrifum á innflutta verðbólgu gæti hins vegar hafa breytt skoðun þessa nefndarmanns á nýjan leik.