Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, lagði áherslu á mikilvægi samstöðunnar í nýársávarpi sínu í gær og lagði áherslu á að nú sé búið að ryðja úr vegi þeim sem vilji sundra þjóðinni. Vísaði hann þar til þess þegar Jang Song Thaek , sem var giftur frænku Kim Jong Un og föðursystur, var tekinn af lífi um miðjan desember.

Ávarp einræðisherrans var sent út í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu í gær.

Í ávarpinu lofaði Un að halda áfram með kjarnorkuvopnaáætlun stjórnvalda og fleira til. Áætlunin hefur í gegnum tíðina verið það sem aðrar þjóðir hafa sett sig upp á móti og m.a. valdið því að viðskiptabann var sett á Norður-Kóreu.

Vikuritið Time segir á vef sínum upp úr frétt AP-fréttastofunnar að Kim Jong Un sé með nýársávarpi sínu að feta í sömu fótspor og afi hans, Kim Il Sung. Hann hafi flutt nýársávörp sem send voru út í útvarpi og sjónvarpi alveg fram til ársins 1994 þegar hann lést. Sonur hans Kim Jong Il hafi hins vegar látið sér nægja að birta nýársávörp sín á prenti í dagblöðum. Hann lést fyrir rétt rúmum tveimur árum og settist Kim Jong Un þá í stól einræðisherrans í Norður-Kóreu.