Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd stuttu tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um að halda vöxtum bankans óbreyttum, þann 6. nóvember síðastliðinn. Stýrivextir eru 6%.

Í fundargerð Peningastefnunefndar sem birt var síðdegis kemur fram að tveir nefndarmenn lýstu þó yfir vaxandi áhyggjum af því hversu þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar væru. Þeir studdu hins vegar tillögu seðlabankastjóra þar sem þeir töldu rétt að bíða þar til að niðurstaða kjarasamninga kæmi í ljós.

Nefndarmenn voru sammála um að laust taumhald peningastefnunnar hefði stutt við efnahagsbatann á undanförnum misserum. Áfram gilti að eftir því sem slakinn hyrfi úr þjóðarbúskapnum væri nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hyrfi einnig.