Það var á sérstaklega vindasömum, þungbúnum degi í Reykjadalnum sem Jón Erlendsson og Martti Kellokumpu tóku þá ákvörðun að stofna fyrirtæki. Þeir voru ákafir útivistarmenn með ástríðu fyrir göngum, veiði, skíðamennsku og golfi. Blindandi sólskin, ærandi haglél, naprir vindar og lárétt rigning gerðu þó sitt besta til að draga úr þeim móðinn. Það var enginn útivistarklæðnaður fær um að takast á við þetta allt.

Þetta öfgakennda veðurfar sem mætti félögunum oft í Reykjadalnum sem og víðar, varð þeim innblástur við hönnun á útivistarfatnaði sem var sérsniðinn að íslenskum aðstæðum. Martti, finnskur heimsmeistari á skíðum, tók að sér að hanna fatnaðinn og Jón, sem hafði rekið sportverslun frá 1987, hóf leit að birgjum og framleiðendum.

Fyrirtækið hét Ozon en heitir nú ZO-ON. Í dag hefur ný kynslóð bæst við hópinn og situr Halldór Örn Jónsson, sonur Jóns Erlendssonar, við stjórnvölinn. Hann tók við stöðu framkvæmdastjóra ZO-ON árið 2013, en hefur verið viðloðandi verslunarbransann frá ellefu ára aldri. Meðal þess sem fyrirtækið selur eru regnjakkar, regnbuxur, vindjakkar, úlpur, bakpokar, pólóbolir og ullarnærföt.

Þeir gáfust hreinlega upp

„ZO-ON, sem hét í upphafi Ozon, er fjölskyldufyrirtæki sem byrjaði í rauninni sem samstarf fimm fyrirtækja á Norðurlöndunum,“ segir Halldór Örn. „Samstarfið fól í sér framleiðslu og hönnun á útivistarfatnaði en stóð aðeins yfir í eitt ár. Norrænu samstarfsaðilarnir gáfust hreinlega upp. Þeir höfðu ekki kraft og trú á að hægt væri að byggja upp þetta vörumerki, enda er það ferli tímafrekt og krefst mikillar orku. Við héldum hins vegar áfram, en breyttum nafninu árið 1999 í ZO-ON. Það var einfaldlega of erfitt að skrásetja og markaðssetja vörumerkið Ozon.“

Frá stofnun hefur ZO-ON tekið miklum breytingum, sérstaklega á undanförnum tveimur til þremur árum. Halldór Örn segir sögu ZO-ON vera eins og söguna af Litla ljóta andarunganum , sem sé nú að verða stór og fallegur. Fyrirtækið hefur að undanförnu gengið í gegnum endurmótun á stefnu sinni, með breytingum á hönnun og framleiðslu. ZO-ON stefnir á landvinninga á erlendum mörkuðum með vörur sínar á komandi misserum.

Viðloðandi bransann frá ellefu ára aldri

Nú ert þú 34 ára gamall og tókst við stöðu framkvæmdastjóra ZO-ON þegar þú varst þrítugur. Hvernig byrjaði þetta allt saman?

„Ég hef verið í þessum verslunarbransa með íþrótta- og útivistarvörur meira eða minna frá því að ég var krakki. Ellefu ára byrjaði ég að afgreiða í íþróttavöruversluninni Boltamaðurinn, sem faðir minn stofnaði. Ég vann líka í stuttan tíma hjá óskabarni þjóðarinnar, Eimskipafélagi Íslands. Þegar maður fór að pæla í framtíðinni hélt ég að mig langaði að verða lögmaður. Ég fór því í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík og kláraði grunnnámið þar árið 2006. Ég áttaði mig þó á því að ég hafði enga sérstaka ástríðu fyrir lögfræði. Áhuginn á stærðfræði og við­ skiptafræði var þó mikill, þannig að ég fór til Kaupmannahafnar og kláraði BS nám í rekstrarhagfræði með áherslu á stærðfræði við Copenhagen Business School. Að því námi loknu tók ég síðan masterinn í fjármálum og hagfræði hjá sama skóla og kláraði hann árið 2011.

Áramótin 2012 hóf ég svo störf hjá ZO-ON. Ég byrjaði að vinna við sölu og markaðssetningu en tók við sem framkvæmdastjóri ári síðar. Frá þeim tíma er óhætt að segja að fyrirtækið hafi tekið gríðarlegum breytingum. Saga fyrirtækisins er í raun eins og sagan af Litla ljóta andarunganum, sem er nú að verða stór og fallegur.“

Nánar er rætt við Halldór Örn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .