Til að koma eiginfjárhlutfalli Íbúðalánasjóðs í 4% þarf að leggja honum til þrjá milljarða króna og rúmlega þrjá milljarða króna í viðbót til að sama hlutfall verði 5%. Samtals þarf því að bæta eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um 6 til 6,5 milljarða króna til að ná langtímamarkmiði sjóðsins um 5% eiginfjárhlutfall.

Samkvæmt ársreikningi Íbúðalánasjóðs er upphæð lána í vanskilum 3,8 milljarðar króna. Það eru bara lán til einstaklinga. Í fyrra var samsvarandi upphæð 1,8 milljarðar króna og hafa vanskil því aukist mikið milli ára.

Í árslok 2009 var eiginfjárhlutfallið 3% samkvæmt ársreikningi. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, útskýrði stöðu Íbúðalánasjóðs á fundi ríkisstjórnar í síðustu viku. Árni Páll leggur áherslu á samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti hans að sjóðurinn er ekki í hættu og að ríkisstjórnin muni standa að baki honum. Verið sé að skoða aðgerðir til að bæta stöðu sjóðsins og í því sambandi sé horft til þess að auka eigið fé hans.

Tapaði 3,2 milljörðum króna

Samkvæmt ársuppgjöri Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2009 tapaði sjóðurinn 3,2 milljörðum króna. Eigið fé var rétt rúmir 10 milljarðar króna. Í lok árs 2008 var eigið fé sjóðsins 13,2 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall mælir fjárhagslegan styrk fyrirtækja. Í reglugerð segir að langtímamarkmið um 5% eiginfjárhlutfall sé til að tryggja að sjóðurinn geti mætt skuldbindingum sínum. Ef hlutfallið stefnir niður fyrir 4% skuli stjórn sjóðsins vekja athygli ráðherra á stöðunni og auka tíðni skýrslugjafar.

Viðskiptablaðið fjallaði um veikari stöðu Íbúðalánasjóðs 25. febrúar síðastliðinn þar sem fram kom að bæta þyrfti eiginfjárstöðu hans. Þá hafði sjóðurinn meðal annars brugðist við með því að hækka álag á ný lán um 0,2 prósentur.

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir að það taki nokkurn tíma að bæta stöðu sjóðsins með þeim hætti. Það hafi verið skoðað að hækka álagið enn meira til að bregðast við þessari stöðu. Það sé hins vegar bara ein leið af mörgum.

Hægt að breyta reglugerð

Samkvæmt orðum félagsmálaráðherra, sem fram koma í samskiptum við Viðskiptablaðið og það sem hann hefur sagt í öðrum fjölmiðlum, er ofarlega á blaði að ríkið bæti stöðu sjóðsins með eiginfjárframlagi í einhverri mynd. Guðmundur bendir á að það geti verið í formi fjárframlags en einnig með víkjandi láni sem greiðist til baka yfir ákveðinn tíma. Einnig sé mögulegt að breyta einfaldlega reglugerð um Íbúðalánasjóð þar sem kröfur um eiginfjárhlutfall eru lækkaðar.

„Það þarf fyrst að skoða hvaða kröfur eigi að gera um eiginfjárhlutfall sjóðsins og spyrja hvort nauðsynlegt sé að setja þessi mörk,“ segir Guðmundur.

Fjórir milljarðar í vanskilum

Stærsta skýringin á tapi Íbúðalánasjóðs á síðasta ári er niðurfærsla krafna á lánastofnanir að upphæð 2,9 milljarðar króna. Sú niðurfærsla kemur til viðbótarvið 7,9 milljarða króna niðurfærslu vegna uppgjörs fyrir árið 2008. Virðisrýrnun krafna á lánastofnanir nemur því tæplega 11 milljörðum króna síðastliðin tvö ár. Ágreiningur er um uppgjör á innstæðum sem Íbúðalánasjóður á hjá Straumi, uppgjör á afleiðusamningum og mögulegri skuldajöfnun. Þessir liðir geta haft áhrif á endanlegt uppgjör.

Þá nemur virðisrýrnun útlána í fyrra samtals 1,8 milljörðum króna sem færist til gjalda. Samtals er afskriftarreikningur útlána 3,1 milljarði króna. Samkvæmt ársreikningi er upphæð lána í vanskilum 3,8 milljarðar króna. Það eru bara lán til einstaklinga. Í fyrra var samsvarandi upphæð 1,8 milljarðar króna og hafa vanskil því aukist mikið milli ára.