Stefán Svavarsson, viðskiptafræðingur, segir að mikil óánægja ríki um nýleg lög um endurskoðendur meðal einyrkja í faginu og forsvarsmanna smærri endurskoðendastofa. Lögin kveði á um að endurskoðun skuli fara fram í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla en séu aðallega fyrir stærri fyrirtæki á markaði. Hann bendir á það í samtali við Morgunblaðið að áhöld séu um það hvort staðlarnir hafi tekið gildi hér á landi þar sem þeir hafi ekki verið þýddir á íslensku.

Stefán segir m.a. að nýju lögin hafi gert það að verkum að einyrkjar sem hafi unnið við fagið í fjölmörg ár geti ekki lengur sinnt endurskoðun og minni fyrirtæki muni ekki leita eftir því að ársreikningar þeirra séu endurskoðaðir því það sé orðið alltof dýrt fyrir þau. Þetta hafi í för með sér að stærri stofur missi litla viðskiptavini af sömu ástæðu eða bjóði þeim aðra og kostnaðarminni þjónustu. Hann segir það vera smærri fyrirtækjum og samfélaginu til gagns að leiða í lög reglur sem virða þann mun sem er á starfrækslu fyrirtækja á almennum hlutabréfamarki og einkafyrirtækja.

Stefán leggur til að gert verði hlé á eftirliti Endurskoðendaráðs og endurskoðendum gefinn meiri tími til að beita lögum um endurskoðun að þeim óbreyttum.