Bankasýsla ríkisins er ekki á fjárlögum næsta árs. Hún fékk 97 milljónir króna á síðasta ári en ekkert á næsta ári. Fram kom í markmiðalýsingu við stofnun Bankasýslunnar árið 2009 að hún eigi að starfa í fimm ár. Eftir þann tíma átti hún að vera búin að selja þær eignir sem hún stýrir eða meirihluta þeirra. Miðað við þær áætlanir sem lagt var upp með við stofnun Bankasýslunnar á að leggja hana niður í lok þessa árs.

Bankasýslan heldur enn utan um eignarhluti ríkisins í bönkum og sparisjóðum. Ríkið á 97% hlut í Landsbankanum, 13% hlut í Arion banka og 5% hlut í Íslandsbanka. Þá stýrir Bankasýslan tæpum 50% hlut í Sparisjóði Norðfjarðar, 79,2% hlut í Sparisjóði Norðurlands og 55,3% hlut af stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja. Þessar eignir jafngilda 15% af eignum ríkisins.

Starfsmenn Bankasýslunnar eru tveir í fullu starfi auk Jóns Gunnars Jónssonar forstjóra. Þá vinnur þar lögfræðingur í hlutastarfi. Jón Gunnar segir í samtali við VB.is í dag ekki hafa búist við því að Bankasýslan væri á fjárlögum. Hann bætir við að stofnunin eigi nóg af ónýttum fjárlögum til að reka stofnunina til áramóta. Verði hún lögð niður hverfi ekki verkefnin heldur færist þau annað. Til að leggja niður Bankasýsluna þarf að breyta tvennum lögum. Lögum um Bankasýsluna og lögum nr. 155 frá 2012 um sölu sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.