Skiptum er lokið í þrotabúi Bergeyjar eignarhaldsfélags ehf. Félagið var í fullri eigu Smáeyjar ehf, félags útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar í Vestmannaeyjum. Lýstar kröfur námu alls 972,2 milljónum króna, en engar eignir fundust í búinu og fékkst því ekkert upp í kröfur.

Bergey var stofnað árið 2006 og átti meðal annars Toyota-umboðið á Íslandi, innflutningsfyrirtækið Gísla Jónsson ehf og Yamaha á Íslandi. Félagið var sömuleiðis í ábyrgð vegna annarra félaga í eigu Magnúsar. Þar á meðal voru Bílaleiga Flugleiða, M. Kristinsson, Sólning í Kópavogi, TMH á Íslandi, Motormax og Pizza Pizza (móðurfélag Dominos á Íslandi).

Motormax varð gjaldþrota árið 2009 auk þess sem skuldauppgjör átti sér stað á milli Smáeyjar, móðurfélags Bergey eignarhaldsfélags, og viðskiptabanka þess Landsbankans. Við uppgjörið voru félagið M. Kristinsson, Bergey fasteignafélag, bílaleigan, Sólning og Pizza Pizza seld til Smáeyjar sem síðan afhenti þau Landsbankanum. Fram kemur í uppgjöri Bergey eignarhaldsfélags, að þrátt fyrir söluna hafi Bergey enn verið í ábyrgð fyrir 4,8 milljörðum af skuldum félaganna.

Magnús kom illa út úr hruninu efnahagslífsins haustið 2008 og sagði í kjölfar sölu á útgerðinni Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum til Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað, að hann hafi verið fórnarlamb markaðsmisnotkunar stjórnenda Landsbankans.