Enn er ekkert í hendi varðandi áframhald fjármögnunar framkvæmda við álver Norðuráls í Helguvík.

Vinnu verktaka er þó enn haldið áfram samkvæmt samningum um byggingu fyrsta áfanga álversins miðast við 120 þúsund tonna ársframleiðslu.

Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, segir að áfram sé unnið að fjármögnun framkvæmdanna sem lentu í uppnámi við fall Landsbankans og Kaupþings.

Í byrjun október fór Norðurál þess á leit við iðnaðarráðuneytið að fá að flýta framkvæmdum við álverið í Helguvík og óskaði eftir heimild til að byggja stærra álver en upphaflega var áætlað, eða 350 þúsund tonn í stað 250 þúsund tonna álvers sem umhverfismatið miðast við.

Þrátt fyrir að ljóst sé að Century Aluminum, sem er eigandi álversins, hafi viðrað við stjórnvöld áhuga á byggingu á stærra álveri, hefur engin yfirlýsing verið gefin út um að ráðist verði í þau áform.

Þá hefur staðan á álmarkaði á heimsvísu breyst mjög snarlega síðan í sumar og álverð hefur hrapað úr 3.300 dollurum tonnið í um 1.935 dollara. Á London Metal Exchange fór verðið niður í um 1.860 dollara þann 12. nóvember, en hefur þó aðeins styrkst síðan.

Samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri  Century Aluminum frá 6. nóvember var talið að ef álverð færi niður fyrir 2.100 dollara væru álver samsteypunnar í Bandaríkjunum komin í taprekstur. Var greint frá því í sömu skýrslu að gripið hafi verið til aðgerða til að skera niður kostnað. Var þar sérstaklega tekið fram að  uppbyggingin í Helguvík væri í endurskoðun.