Að sögn Jóns Karls Ólafssonar, forstjóra Icelandair Group, er áfram stefnt að skráningu félagsins með haustinu þó ekki hafi endanlega verið gefið upp um dagsetningar.

Hann sagði að það væri eigenda félagsins að segja nákvæmlega til um dagsetningu en í raun hefði öllum undirbúningi verið lokið hjá félaginu sjálfu í vor þó að markaðsaðstæður hefðu ekki verið taldar heppilegar þegar til kom. Þannig lægi skráningarlýsing að mestu fyrir og ætti að taka skamman tíma að ljúka henni. "Það er ekkert því til fyrirstöðu af okkar hálfu að skrá félagið. Þetta er bara spurning um vilja eigenda," sagði Jón Karl.

Icelandair Group skilaði sinni bestu sex mánaða afkomu í sögunni nú á fyrri helmingi ársins og jókst hagnaður dótturfélagsins fyrir afskriftir fjármagnsliði og skatta (EBITDA) um 511 milljónir samanborið við árið á undan og nam 1.3 milljörðum króna.

Hannes Smárason, forstóri FL Group, sagði á kynningarfundi í tengslum við uppgjörið, að áfram yrði hugað að skráningu Icelandair Group í Kauphöllina með haustinu þegar markaðurinn væri komin úr sumardvala og aðstæður á markaði yrðu fýsilegri. Það var í febrúar sem greint var frá fyrirhugaðri skráningu félagsins.

Dow Jones fréttastofan hafði eftir Hannesi í síðustu viku að búist sé við að um 200 milljónir evra, sem samsvara tæpum 18 milljörðum króna, fáist fyrir um 66,67% í félaginu við skráningu í Kauphöllina. Í frétt Dow Jones er einnig haft eftir honum að möguleiki sé að skrá danska lággjaldaflugfélagið Sterling, sem FL Group keypti af eignarhaldsfélaginu Fons í fyrra fyrir 15 milljarða króna, á hlutabréfamarkað.

Þrálátur orðrómur hefur verið um að unnið sé að sameiningu Sterling, sænska lággjaldaflugfélagsins FlyMe og FlyNordic, sem er í eigu Finnair. Fons á um 20% í FlyMe og FL Group og Straumur-Burðarás eru verulegir hluthafar í Finnair. Ekki er vitað hvort að orð Hannesar megi túlka þannig að ekki verði af sameiningu félaganna þriggja. Hins vegar var áætlað í kjölfar hugsanlegrar sameiningar að nýtt félag skyldi skráð á markað og að FL Group yrði stærsti hluthafinn í sameinuðu flugfélagi.

Nýlegar skráningar erlendra flugfélaga á hlutabréfamarkaði hafa ekki gengið sem skyldi, en nýleg hlutafjárútboð flugfélaganna Air Berlin og Air China voru talsvert undir væntingum.