"Það er því ekkert því til fyrirstöðu í dag að erlend fyrirtæki hefji virkjanaframkvæmdir á Íslandi hafi þau undirbúið málið samkvæmt íslenskum lögum og fengið þau leyfi sem tilskilin eru. Þetta hefur ekkert með það að gera hvort íslensku orkufyrirtækin eru í eigu ríkisins eða ekki," segir Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, í pistli á heimasíðu sinni í dag. Í pistli sínum fjallar hún um orkumál og bendir á að með aðild Íslands að EES er Íslendingum óheimilt að mismuna á grundvelli þjóðernis innan EES-svæðisins.

Valgerður fjallar einnig um vendingar undanfarinna daga og bendir á að fyrrverandi ríkisstjórn gat ekki haft áhrif á sölu Hitaveitu Suðurnesja.  "Það verður að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í þeim efnum þó svo að einhverjir geti verið ósáttir með þann gjörning."

Valgerður segist telja að inngrip löggjafans við þessar aðstæður eigi að vera mjög takmarkað fyrir utan það að koma á fyrirtækjaaðskilnaði í rekstri orkufyrirtækja. "Stóru spurningarnar í þessu máli í dag snúa að meðferð og ráðstöfun orkulinda þjóðarinnar, þ.e.a.s. hvaða land við ætlum að vernda og hvaða land við ætlum að nýta. Það er mál sem varðar löggjafann og er hápólitískt mál. Á árinu 1999 hófst vinna við gerð Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem snýst um það að meta og flokka alla virkjanakosti með tilliti til orkugetu, hagkvæmni, áhrifa á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, svo og hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Undirbúningur vinnunnar hafði hafist nokkrum árum fyrr. Samkvæmt stefnu fyrri ríkisstjórnar skyldi því verki ljúka árið 2009. Núverandi ríkisstjórn hefur sett sér þau markmið að flýta þeirri vinnu sem varðar einhverja mánuði."

Valgerður bendir á að samkvæmt frumvarpi sem fv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson lagði fram sl. vor, en hlaut ekki afgreiðslu þingsins þrátt fyrir að nefndin sem vann frumvarpið hafi verið þverpólitískt skipuð og um niðurstöður hennar sátt, var lagt til að þar til verndar- og nýtingaráætlun hefði tekið gildi yrðu svæði ekki rannsökuð eða nýtt nema þau sem hefðu ekki mikil umhverfisverðmæti og þá með samþykki Alþingis. Með frumvarpinu var því leitast við að leggja grunn að þjóðarsátt milli sjónarmiða verndar og nýtingar.