Ekki er búist við neinum viðsnúningi á fasteignamörkuðum heimsins til hins betra á næstu misserum. Þjóðverjar búa þó við þá sérstöðu að þurfa ekki að glíma við mikla niðursveiflu vegna yfirspennu á markaði.

Flestir fasteignamarkaðir heims hafa orðið fyrir áhrifum mikillar verðþenslu á undanförnum árum og súpa nú seyðið af bakslaginu á peningamörkuðum. Það eru þó allavega tveir markaðir sem öðruvísi er ástatt um í dag, en það er japanski fasteignamarkaðurinn og sá þýski. Á þessum mörkuðum varð ekki sú verðþensla sem sjá mátti í öðrum löndum og hugsanlega eiga þeir þá að sama skapi talsvert inni. Ástæðurnar fyrir lítilli þenslu í Þýskalandi hefur m.a. verið sögð innprentuð varkárni Þjóðverja í peningamálum og sú staðreynd að stór hluti Þjóðverja kýs fremur að leigja en kaupa íbúðir.

Leiguíbúðamarkaðurinn er líka mjög þróaður og fólk getur verið nokkuð öruggt með það húnsæði sem það leigir. Í Japan eru að hluta nefndar aðrar skýringa, einkum sú að markaðurinn hafi nánast verið í frosti síðan í efnahagskreppunni 1997. Fasteignamarkaðurinn endurspegli þær efnahagsaðgerðir sem gripið var til, eða öllu heldur ekki var gripið til eftir þá miklu kreppu. Því sé hann enn í frosti. Í stað verðþenslu í Þýskalandi í líkingu við það sem gerðist á flestum öðrum löndum Evrópu, þá varð í raun verðhjöðnun víða í landinu á árinu 2006. Þar sem þýski markaðurinn var ekki yfirspenntur eins og í löndunum í kring þá er ekki um að ræða neinn skell.

Hins vegar er heldur ekki að vænta neinnar verulegrar uppsveiflu á næstunni að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvað verður þegar efnahagskerfi heimsins fer að snúast af krafti á nýjan leik er ekki gott að segja. Þá mætti ætla miðað við skýrslur að markaðurinn í Þýskalandi ætti mikið inni. Í Þýskalandi er gríðarlega stór fasteignamarkaður og ef hann færi á skrið gæti bylgjan trúlega stór. Um 82,5 milljónir manna búa í Þýskalandi og þar eru 33 milljónir heimila.

Enn svartsýni um þróunina

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (International Monetary Fund – IMF) er ekki sérlega bjartsýnn á að fasteignamarkaðurinn í heiminum fari að rétta úr kútnum á næstunni. Bandaríski markaðurinn hafi þegar lækkað um 10% og IMF telur hann enn ofmetinn og því megi búast þar við 14-20% lækkun til viðbótar á þessu ári. Það verði ekki fyrr en á árinu 2009 sem búast megi við hægum bata. Hann segir einnig að fasteignamarkaðirnir í Bretlandi, á Írlandi og á Spáni séu enn yfirverðlagðir um 20%. Í Þýskalandi sé ekki að búast við miklum vexti hagkerfisins og aðeins 1% vexti á árinu 2009 sem sé 0,2 - 0,4% minna en í öðrum evruríkjum.

Þrátt fyrir niðursveifluna víða um heim, þá ber svo við að mikil uppsveifla hefur verið í borginni Melbourne í Ástralíu að undanförnu. Í mars hækkaði fasteignaverð þar í borg t.d. um 4,1% að meðaltali samkvæmt frétt ABC News. Er það skýrt með mikilli fólksfjölgun á svæðinu. Þrátt fyrir þessar hækkanir þá var salan í mars 12% minni en á sama tíma í fyrra, svo einhvern veginn passar þetta ekki alveg við markaðslögmál framboðs og eftirspurnar.