Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingar:

Umræðan berst að lagaramma um fíkniefni. Árni Páll segir: „Á síðasta landsfundi samþykkti flokkurinn að takast þurfi á við fíknisjúkdóma með áherslu á forvarnir, meðferð og endurhæfingu. Horfast verði í augu við þá staðreynd að refsirammi vímulöggjafarinnar sé of strangur og sé ekki til þess fallinn að aðstoða fólk sem stríðir við vímuefnavanda. Varsla neysluskammta fíkniefna ætti þar af leiðandi ekki að vera refsiverð og aukið fjármagn verði veitt í forvarnir og fræðslu í stað löggæslu.“

Hvað lögleiðingu efnanna varðar, segir hann: „Ég hef velt þessu máli mikið fyrir mér og ég skil alveg rökin. Við þurfum að ræða þetta mál, það þarf að ræða hætturnar og samfélagslegar afleiðingar. Við eigum bara að taka þessa rökræðu.“

Hann kveðst þó ekki tilbúinn til að skera úr um hvað sé best að gera að svo stöddu. „Þetta er eitt af þessum málum sem hefur margar hliðar og líka miklar hættur. Kannabis er til dæmis ekki hættulaust efni, en það er svo sem áfengi ekki heldur.“