Ríkið hefur þegar þurft að greiða 510 milljónir króna í skaðabætur vegna tveggja útboða Vegagerðarinnar. Fyrir rúmu ári síðan dæmdi Hæstiréttur ríkið til að greiða Hópbílaleigunni um 250 milljónir í bætur vegna útboðs um sérleyfisakstur. Hópbílaleigan átti lægsta tilboðið en því var ekki tekið og samið við Kynnisferðir í staðinn. Fyrir rúmum tveimur árum var ríkið dæmt til að greiða Íslenskum aðalverktökum og NCC International um 260 milljónir vegna útboðs um gerð Héðinsfjarðarganga.

Greint var frá þessu í Viðskiptablaðinu 29. janúar og þá kom einnig fram að Hópbílaleigan væri nú búin að höfða nýtt mál gegn ríkinu. Nú krefst fyrirtækið þess að fá um 200 milljónir í viðbót vegna tekjumissis sem það telur sig hafa orðið fyrir vegna tveggja ára framlengingarákvæðis sem var í upphaflega samningnum um sérleyfisaksturinn.

Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri segir að það sé ekki alltaf rétt að taka lægstu tilboðum.

„Ég get nefnt sem dæmi að það er í gangi verk núna sem við treystum alls ekki lægstbjóðanda til að sinna,“ segir Gunnar, sem vill ekki segja hvaða verk þetta er né hvaða verktaki eigi í hlut. „Kærunefnd útboðsmála skyldaði okkur hins vegar til að taka tilboðinu. Þetta er verk sem átti að ljúka síðasta haust en það fór eins og okkur grunaði. Fyrirtækið missti tökin og verkið hefur staðið óklárað í vetur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .