Útlit er fyrir að velta á íbúðamarkaði verði 18% meiri í krónum talið en í fyrra og að kaupsamningar verði um 13% fleiri. Fram kemur í Þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem birt var í dag, að velta á íbúðamarkaði jókst um 57% á milli ára í fyrra voru kaupsamningar 47% fleiri þá en árið 2010. Þá er tekið fram að þótt fasteignamarkaðurinn hafi haldið áfram að styrkjast á þessu ári þá sé vöxturinn ekki eins mikill og sást í fyrra.

Ef aðeins er litið til höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir því að aukningin á markaðnum verði minni en í fyrra eða 17% í veltu og samningarnir 11% fleiri en í fyrra.

Tekið er fram að fasteignaviðskipti voru í lágmarki árið 2009, en þá voru þau um 40% þess sem nú er og byggðist að auki stór hluti viðskiptanna þá á makaskiptum. Miðað við fjölda kaupsamninga eru fasteignaviðskipti á þessu ári aðeins um helmingur þess sem var að meðaltali á árunum 2004 til 2007.

Þjóðhagsspá Hagstofunnar