Ekki er til neitt einfalt úrræði gegn veikingu krónunar að því er fram kom í máli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á Alþingi í dag nema ef vera skyldi „að taka áhættu af því að ráðstafa dýrmætum gjaldeyrisforða í tímabundnar aðgerðir til að lyfta upp gengi krónunnar," sagði hann. Þeirri leið mælti hann ekki með.

Steingrímur var þarna að svara fyrirspurn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks. Bjarni sagði að gengi krónunnar hefði fallið um sextán prósent frá 1. febrúar, eða frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum.

„Þetta er allur árangurinn," sagði hann, „af starfi nýju ríkisstjórnarinnar."

Bjarni sagði að það stefndi í fleiri gjaldþrot og að það stefndi í nýja verðbólgubylgju sem aftur kæmi í veg fyrir frekari stýravaxtalækkanir Seðlabankans. Bjarni gerði enn fremur að umtalsefni að Seðlabankinn væri horfinn af gjaldeyrismarkaði. Með litlum minni háttar inngripum á þeim markaði gæti hann haft mikil áhrif. Hinn nýi Seðlabankastjóri hefði hins vegar greinilega tekið þá ákvörðun að hverfa af honum.

Steingrímur sagði að það væri að sjálfsögðu vonbrigði hve krónan hefði veikst. Ástæðunu mætti rekja til  margra hluta. Til að mynda til gjalddaga og vaxtaafborgana.