Áhugasamir fjárfestar um kaup á 95% hlut Glitnis í Íslandsbanka hafa ekki gert eiginlegt kauptilboð í bankann. Fjárfestarnir hafa kastað fram hugmyndum um verð. Þetta segir Páll Eiríksson, sem situr í slitastjórn Glitnis, í samtali við fréttastofu RÚV . Páll segir að það sé langt frá því að farið sé að ræða af alvöru um sölu. Fjárfestarnir hafi ekki fengið heimild til að kynna sér fjárhagsleg gögn hjá Íslandsbanka, enda sé það há ströngum skilyrðum um bankaleynd.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins frá slitastjórn Glitnis verður fréttatilkynning um málið send út síðar í dag.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að hópur fjárfesta frá Asíu, meðal annars kínverskir fjárfestar, hafi áhuga á að kaupa hlut Glitnis í Íslandsbanka. Samkvæmt heimildum blaðsins gæti kaupverð numið um 115 milljörðum króna. Í hádegisfréttum RÚV var greint frá því að verðhugmynd fjárfestanna sé blanda af bókfærðu virði bankans og gengi krónunnar. Slitastjórnin hefur metið hlutinn á tæplega 116 milljarða króna.

Í samtali við RÚV segir Páll að ekki hafi verið lagt mat á hvort fjárfestarnir séu hæfir til að eiga banka en það verði gert um leið og viðræður komist á það stig. Lög um fjármálafyrirtæki kveða á um að sjtórnarmenn og framkvæmdastjóri séu búsettir í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Kína er ekki aðili að OECD en FME er þó heimilt að veita undanþágu frá þessum búsetuskilyrðum.