Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að íslensk stjórnvöld hafi sér vitandi ekki sett fram neinar kröfur á hendur kröfuhöfum föllnu bankanna.

Í Bloomberg í dag segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi fullyrt að hann vilji að kröfuhafar Íslandsbanka, Kaupþings og gamla Landsbankans afskrifi 3,8 milljarða dala til þess að hægt yrði að aflétta fjármagnshöftum.

„Það kom mér spánskt fyrir sjónir að hann talaði um kröfur stjórnvalda. Ég vissi ekki að þeim hefði verið stillt upp,“ segir Frosti í samtali við VB.is. Frosti segir aftur á móti að öllum eigi að vera það ljóst að svo hægt sé að hleypa þessum erlendu kröfuhöfum út með krónueignir sínar og varðveita stöðugleika þá þurfa þeir að gera tilslakanir. „Ef þeir vilja komast úr úr höftunum þá þurfa þeir að gera það. En ég vissi ekki að það væri búið að stilla þeim  upp með sérstökum kröfum,“ segir Frosti.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem sæti á í slitastjórn Kaupþings, segir í samtali við Bloomberg í dag að slitastjórnin muni ekki gera þá kröfu að kröfuhafarnir afskrifi hluta eigna sinna.

Frosti segir að það sé mál slitastjórnarinnar hvernig þeir meta hag kröfuhafanna, hvort þeir vilji fara út fyrr eða síðar. „ En þeir geta ekki tekið allar krónuegnirnar út, þess vegna eru nú höft,“ segir Frosti en bendir á að það séu fleiri leiðir en að kröfuhafar afskrifi kröfur sínar.