*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 13. maí 2018 12:25

Ekki hætt á miðri brú

Pawel Bartoszek, annar maður á lista Viðreisnar í borginni, og Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, mættust á Þingvöllum á K100 í morgun.

Ritstjórn
Pawel Bartoszek. Mynd úr safni.
Haraldur Guðjónsson

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórnarkosningunum, og Pawel Bartoszek, annar maður á lista Viðreisnar í borgarstjórnarkosningunum, ræddu meðal annars  um borgarlínu og stýringu umferðarljósa í þætt­in­um Þing­vell­ir á K100 í morg­un.

Í þættinum kom meðal annars fram í máli Vigdísar að Miðflokkurinn vilji hafa frítt í strætó og að ferðir strætó verði tíðari. Samkvæmt ársreikningi náum tekjur Strætó af fargjöldum tæpum 1,9 milljörðum, svo það loforð er síður en svo hinu opinbera að kostnaðarlausu. Vigdís benti hins vegar á að það væri um það bil kostnaðurinn sem hlýst af uppbyggingu Borgarlín, dreift niður á hálfa öld.

Pawel skaut á Vigdísi og nefndi að gönguljós yfir Miklubraut við Klambratún væru nú þannig að um leið og ýtt væri á þau en ekki allt að tveimur mínútum síðar. Pawel fjallaði raunar um þessi ljós í grein á Kjarnanum fyrr í ár, þar sem hann gagnrýndi eldra fyrirkomulag. „Ljósin eru bestuð í þágu fólks, sem kemst þá yfir götuna. Það kemur rautt ljós um leið og fólk ýtir á gönguljósið. Við gætum auðvitað látið fólk bíða í tvær mínútur til að greiða fyrir umferð eða það sem væri best; að það kæmi aldrei grænt ljós hjá gangandi. Það myndi greiða fyrir umferð,“ sagði Pawel.

Vigdís ítrekaði að Miðflokkurinn legðist gegn áformum um Borgarlínu, sem hún sagði dýra. Pawel tók undir að vissulega væri um kostnaðarsama framkvæmd að ræða þar sem hver kílómetri kostaði allt að einn og hálfan milljarð. Hann benti þó á að Borgarlína væri ekki „allt eða ekkert“ verkefni, ólíkt Sundabrautinni sem Miðflokkurinn talaði fyrir. Það væri nefnilega ekki hægt að hætta á miðri brú á meðan Borgarlínunni mætti áfangaskipta.

Stikkorð: kosningar x18